Bónus á grænum grunni
Bónus er í stöðugri þróun og er sérstök áhersla lögð á umhverfisþáttinn í rekstrinum, eins og t.d. led lýsingu, íslenskt umhverfisvænt kælikerfi og svo að sjálfsögðu flokkun sorps sem Bónus hefur gert í 30 ár.
Bónus kolefnisjafnar
Umhverfisvernd er eitt af stærstu verkefnum samtímans, og með öflugri umhverfisstefnu vill Bónus leggja sitt af mörkum og sýna um leið samfélagslega ábyrgð í verki.
Bónus var fyrsta matvöruverslunin til þess að kolefnisjafna rekstur verslana sinna en það hefur verið gert síðan í maí 2019 (fyrir rekstrarárið 2018). Kolefnisbindingin er unnin í samstarfi við Kolvið sem sér um gróðursetningu trjáa fyrir hönd Bónus. Kolefnisfótsporið hefur minnkað milli ára en árið 2022 munu bætast við 6618 tré í skóginn okkar við Úlfljótsvatn.
Árið 2021 nam losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri bónus tæpum 662 CO2 tonnum. Það er lækkun um 14% frá árinu áður og 24% lækkun frá árinu 2019.
Þá er Bónus kjölfestustyrktaraðili að verkefni Langræðslunnar og Skógræktarinnar um að safna og sá birkifræjum til að rækta upp birkiskóga á Íslandi.




Flokkun í Bónus
Bónus heldur áfram að bæta í þegar kemur að flokkun úrgangs og hefur hlutfall flokkaðs úrgangs farið úr 75,6% á árinu 2020 og upp í 77,4% á árinu 2021. Á sama tíma hefur heildarþyngd úrgangs minnkað um 4,4% frá grunnári.
Þá hefur losun gróðurhúsalofttegunda frá rekstrarúrgangi dregist saman um tæplega 41% á tímabilinu 2019-2020.
Óflokkaður úrgangur dróst saman um 14% milli ára og tæp 27% frá árinu 2019. Svipaður árangur hefur náðst með urðun en hún hefur dregist saman um 13% milli ára og 27% frá árinu 2019.
Bónus er sannarlega stolt af þessum frábæra árangri sem hefur náðst í að takmarka magn úrgangs sem kemur frá verslunum okkar.
Bónus og viðskiptavinir gegn matarsóun
Árið 2021 pakkaði starfsfólk Bónus alls 115 tonnum af útlitsljótum ávöxtum og grænmeti í svokallaða matarávaxtapoka til þess að takmarka sóun í þessum flokki eins og kostur er.
Þá hefur Bónus tekið upp notkun á databar afsláttarkerfi sem gefur sjálfkrafa afslátt á ferskum kjúkling og fersku ókrydduðu lamba- og nautakjöti sem nálgast síðasta söludag. Bæði veitir þetta viðskiptavinum betri kjör á ferskvöru með takmarkaðan líftíma sem og að veita birgum Bónus daglegar upplýsingar fyrir hverja vörutegund. Þetta hefur hjálpað okkur að hafa betri yfirsýn yfir sölu og þannig hefur okkur tekist að minnka sóun í þessum vöruflokk.




Leiðandi á markaði í útrýmingu plasts
Með tilkomu lífniðurbrjótanlegu burðapokanna hafa sparast allt að 200 tonn af plasti á hverju ári. Bónus burðarpokarnir brotna 100% niður ef þeir eru flokkaðir með lífrænum úrgangi. Þá hefur Bónus hvatt til notkunar á fjölnota burðapokum auk þess að bjóða upp á fjölnota net sem hægt er að nota undir ávexti og grænmeti. Frá árinu 2018 höfum við selt og gefið yfir 500 þúsund fjölnotapoka.
Bónus hefur gert róttækar breytingar á umbúðum á okkar eigin Bónus vörum með umhverfisvæn sjónarmið að leiðarljósi. Vörur líkt og súpur, hnetublandan vinsæla og nýbakað bakkelsi sem áður var pakkað inn í plast umbúðir eru nú komnar í umhverfisvænni umbúðir úr pappa sem má auðveldlega flokka.
Þá hefur orðið bylting í plastnotkun í pökkun á vinnslu á kjöti en með nýrri tækni hefur plastmagn í umbúðum af nautahakki og hamborgurum frá Íslandsnauti minnkað úr 21 grammi á hverja einingu niður í 3 grömm á hverja einingu. Með þessu sparast um 30 tonn af plasti á hverju ári.
Á árinu 2021 hófst svo samstarfsverkefni milli Bónus og Tempra þar sem markmiðið er að endurvinna frauðplast sem kemur til landsins með vínberjum frá Kaliforníu. Verkefnið er á frumstigi en verið er að þróa innviði og ferla til þess að þetta spennandi verkefni verði að veruleika.
Vöruval og verslanir að breytast í rétta átt
Frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra um bann við sölu á einnota plastvörum varð að lögum árið 2020. Með lögunum var meðal annars lagt bann á sölu á hvífapörum, diskum, glösum, rörum og bómullarpinnum úr plasti.
Bónus var fyrst matvöruverslana hér á landi til að bjóða upp á einnota vörur úr lífniðurbrjótanlegum og umhverfisvænni efnum en áður. Það kom okkur því ekki í koll þegar lögin tóku gildi enda höfðu einnota plastvörur ekki verið keyptar inn í verslanir Bónus í lengri tíma.
Bónus hefur markvisst unnið að því að draga úr orkusóun í verslunum sínum með því að skipta yfir í umhverfisvænni orkumiðla og orkusparandi LED perur. Þá byggja allar nýjar og endurhannaðar verslanir Bónus á grænum grunni þar sem umhverfisvænna kælikerfi nýtir orkuna betur og lokaðir kælar og frystar tryggja jafnara hitastig sem skilar sér í betri gæðum og endingu frystivara.
Ný LED lýsing, ásamt lokun kæla og frysta hefur hingað til minnkað notkun á rafmagni í verslunum um allt að 50%.

