Bónus Kolefnisjafnar 2018
Það er okkar sönn ánægja að tilkynna að Bónus hefur nú kolefnisjafnað rekstur verslana sinna fyrir 2018. Bónus og Kolviður undirrituðu samning þess efnis í dag, þann 21. maí 2019.
Í upphafi árs (2019) hófst mikil vinna við að safna saman gögnum hvert kolefnisspor verslana Bónus er um land allt, árið 2018. Þessari reiknisvinnu er nú lokið með hjálp hugbúnaðarfyrirtækisins Klappir Grænar Lausnir hf. Umhverfisstjórnunarhugbúnaður þeirra hefur nú verið innleiddur inn í verklag Bónus sem mun vafalaust hjálpa fyrirtækinu að ná enn betri árangri í umhverfismálum.
Bónus hefur því fjárfest í kolefnisbindingu hjá Kolviði til að jafna út áhrif rekstursins á umhverfið. Kolefnisfótspor Bónus 2018 var 667 CO2 tonn. Kolviður mun því planta 6.670 trjám á u.þ.b. tveggja hektara landsvæði til að jafna út kolefnisfótsporið.
Umhverfisvernd er eitt af stærstu verkefnum samtímans, og með þessu vill Bónus leggja sitt af mörkum og sýna um leið samfélagslega ábyrgð í verki.
Bónus er fyrsta matvöruverslun á Íslandi til að kolefnisjafna sinn rekstur.
Mynd frá vinstri: Reynir Kristinsson (Stjórnarformaður Kolviðs), Baldur Ólafsson (Markaðsstjóri Bónus) og Anton Birkir Sigfússon (Klappir).