Björgvin Víkingsson ráðinn innkaupastjóri og aðstoðarframkvæmdastjóri Bónus
Björgvin Víkingsson hefur verið ráðinn innkaupastjóri og aðstoðarframkvæmdastjóri Bónus frá og með 1. maí 2023. Björgvin hefur starfað sem forstjóri Ríkiskaupa frá árinu 2020 og leitt umbreytingu á stefnu og vinnulagi í innkaupum og stjórnun stofnunarinnar. Björgvin er með meistaragráðu í aðfangakeðjustjórnun frá ETH háskólanum í Zurich og B.Sc. gráðu í umhverfis- og byggingaverkfræði frá Háskóla Íslands. Björgvin hefur víðtæka reynslu af innkaupum og vörustjórnun hjá alþjóðlegum fyrirtækjum á borð við Maersk, Aasted Aps, DT Group og Marel hf. Þá hefur Björgvin jafnframt haldið vinnustofur og kennt vörustjórnun og stefnumarkandi innkaup við Háskólann í Reykjavík.
Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus:
Starfsemi Bónus hefur gengið vel og umsvifin aukist verulega, bæði vegna fjölgunar verslana og rýmri opnunartíma, einnig leita nú sífellt fleiri í hagkvæmari verslunarkosti í matvöru, en þar liggja einmitt áherslur og styrkur Bónus. Þetta þýðir að það eru fleiri verk að vinna og það er virkilega ánægjulegt að fá nýjan og öflugan liðsmann, Björgvin Víkingsson, í Bónus-teymið. Bónus hefur alla tíð lagt áherslu á hagkvæmni í innkaupum ásamt því að halda rekstrakostnaði í lágmarki, Björgvin verður því góður liðstyrkur og mun gera gott teymi enn betra.