Afgreiðslutími Bónus á Selfossi og Fitjum lengdur

Opið frá 10 til 20

Skammt er síðan Bónus tilkynnti lengri afgreiðslutíma verslana en breytingunum hefur verið mjög vel tekið og því hefur verið ákveðið að lengja einnig afgreiðslutíma á Selfossi og Fitjum í Reykjanesbæ en þar er núna opið frá 10 til 20. Lenging afgreiðslutíma er einnig í skoðun í fleiri verslunum.

Baldur Ólafsson, markaðsstjóri Bónus segir „viðtökur í þeim verslunum þar sem afgreiðslutími var lengdur hefur farið fram úr okkar björtustu vonum og því stigum við það skref að lengja afgreiðslutíma strax í tveimur verslunum til viðbótar, það er á Selfossi og á Fitjum í Reykjanesbæ.“

Viðtökur hafa allsstaðar verið góðar en Spöngin í Grafarvogi sem nú er opin til 20 hefur verið sérlega vinsæl að kvöldi til. „Þetta er ánægjulegt fyrir okkur“ segir Baldur, „lengri afgreiðslutími hjálpar okkur að draga úr matarsóun þar sem við höfum meiri tíma innan hvers dags til að koma út vörum sem eru viðkvæmar, eins og ávöxtum og grænmeti en lykillinn að lágu verði fyrir okkar viðskiptavini felst m.a. í því að hafa mikinn aga á því að draga úr hverskonar sóun í okkar verslunum.“

Í dag er opið frá kl. 10 til 20 alla daga á Smáratorgi, í Skeifunni, Spönginni, á Fiskislóð, að Helluhrauni, í Mosfellsbæ, að Fitjum Reykjanesbæ, á Selfossi og Langholti á Akureyri.