Bónus páskaegg í Grænlandi

Bónus páskaegg í afskekktum hluta Grænlands

Bónus hefur frá upphafi stutt starf Hrafns Jökulssonar og félaga á Grænlandi. Eitt skemmtilegasta verkefnið gegnum árin er Páskahátíð Hróksins í Ittoqqortoormiit, sem er afskekktasta þorp Grænlands. Nú er ekki hægt að halda hátíðina vegna Covid en Hrafn og félagar í Kalak og Vináttu í verki náðu samt að koma Bónuspáskaeggjum til allra barnanna í bænum.

Öll páskaegg komust óbrotin á leiðarenda, eftir heilmikið ferðalag. Icelandair, Norlandair og Air Greenland tóku höndum saman og fluttu páskaeggin ókeypis. Eimskip og Roayl Arctic Line önnuðust líka ókeypis sendingu á hátt í þriðja hundrað páskaeggjum sem flutt voru gegnum Nuuk.

,,Það var mikil hamingja meðal barnanna á Grænlandi að fá páskaeggin eins og hægt er að ímynda sér. Það var sérlega gaman að koma Bónuspáskaeggjunum til barnanna Ittoqqortoormiit. Bónuspáskaeggin fara víða um Grænland. Börnin í Nanortalik og Kuummiut fá páskaegg að gjöf frá Brimi hf., sömuleiðis gestir Kofoed Skole, sem er athvarf fyrir heimilislausa í Nuuk, og börnin í Kulusuk, sem er næsti bær við Ísland. Ég vil þakka Bónus frábæra samvinnu og stuðning við að gleðja grænlensku börnin. Þetta yljar um hjartarætur,“ segir Hrafn.